Innlent

Risatertunum skipt út fyrir litríkari rakettur í millistærð

Risaterturnar sem notið hafa mikilla vinsælda síðustu árin seldust lítið sem ekkert í fyrra. Vöruúrvalið er því afar breytt í ár. fréttablaðið/pjetur
Risaterturnar sem notið hafa mikilla vinsælda síðustu árin seldust lítið sem ekkert í fyrra. Vöruúrvalið er því afar breytt í ár. fréttablaðið/pjetur

Ein aðaltekjulind björgunarsveitanna, flugeldasalan, brást í fyrra samkvæmt Kristni Ólafssyni, framkvæmdastjóra Slysavarnafélagsins Lands­bjargar. Kristinn segir að í ár sé búið að laga vöruúrvalið að ástandi, fara vel ofan í rekstur­inn og skera allan óþarfa í burtu.

„Útkoman í fyrra var ekki beysin þar sem við urðum að borga mjög hátt verð fyrir vöruna vegna stöðu krónunnar þannig að við gerðum ekkert meira en að borga reikningana og búið. Það var enginn hagnaður þannig að þetta er ekki búið að vera létt,“ segir Kristinn. „Við erum búin að fara vel ofan í reksturinn, taka allan óþarfa í burtu og leggja áherslu á nýja þætti í vöru­úrvalinu, þessa millistóru hluti sem við reiknum með að almenningur muni frekar kaupa en flytjum ekki inn risaterturnar sem hafa verið mikið keyptar síðustu árin.“

Síðustu áramót varð mikill afgangur af stærri flugeldunum eins og tertunum en þess í stað urðu sölustaðir uppiskroppa með millistórar vörur. „Við erum því ekki aðeins að flytja inn meira af millistóru flugeldunum heldur bættum við líka effektana á þeim, með meiri litadýrð. Þannig fá nú allir nýjan Gunnar og nýja Bergþóru en við erum með fjórtán nýjar tegundir af millistóru rakettunum. Eins eru þessir millistóru fjölskyldupakkar veglegri en áður hefur verið. Við vonumst til að þetta takist í ár með dyggri hjálp almennings.“ - jma




Fleiri fréttir

Sjá meira


×