Enski boltinn

Diego til skoðunar hjá City

Diego hefur verið kjörinn besti leikmaður þýsku úrvalsdeildarinnar
Diego hefur verið kjörinn besti leikmaður þýsku úrvalsdeildarinnar NordicPhotos/GettyImages

Brasilíski miðjumaðurinn Diego er næsta nafnið á eftir landa sínum Kaka á löngum óskalista Manchester City eftir því sem fram kemur í helgarblaðinu News of the World.

Hinn 23 ára gamli Diego hefur slegið rækilega í gegn með þýska liðinu Werder Bremen, en rétt eins og landi hans Robinho hjá Manchester City, hefur hann átt það til að koma sér í vandræði utan vallar.

Diego hefur átt það til að mæta of seint á æfingar og var tekinn fyrir ölvunarakstur um daginn.

Diego hefur lengi verið orðaður við stórlið eins og Real Madrid, Juventus og Arsenal.

Robinho og Diego eru góðir vinir eftir að hafa vaxið úr grasi sem knattspyrnumenn hjá liði Santos í heimalandinu.

Terminator kærasta

Sagt er að Manchester City sé tilbúið að greiða Bremen 25 milljónir punda fyrir Diego og að honum verði jafnvel boðin allt að 180,000 pund í vikulaun

Þess má til gamans geta að samkvæmt frétt News of the World á hann þýska kærustu sem er poppsöngkona og heitir Sarah Connor.

Connor þessi gerir það gott í poppinu og á að baki plötur eins og "Sexy as Hell" og yrði eflaust mikið fréttaefni fyrir breska fjölmiðla ef unnusti hennar tæki þá ákvörðun að flytja til Englands.

Diego er ekki eini maðurinn sem orðaður er við Manchester City áður en félagaskiptaglugginn lokar eftir viku, því nú er Miguel Veloso hjá Sporting Lissabon orðaður við City og sagður muni kosta félagið 20 milljónir punda.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×