Íslenski boltinn

Jankovic: Það ber að refsa dómurum líka

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Milan Stefán Jankovic, þjálfari í Grindavík.
Milan Stefán Jankovic, þjálfari í Grindavík. Mynd/Vilhelm

Milan Stefán Jankovic segir í samtali við Vísi að hann sé allt ánægður með þá meðferð sem dómarar fá hér á landi en hann hætti í dag sem aðalþjálfari Grindavíkur sem leikur í Pepsi-deild karla.

Milan Stefán ákvað að hætta eftir leik Fjölnis og Grindavíkur á mánudagskvöldið. Fjölnir vann leikinn, 3-2, en sigurmarkið kom úr vítaspyrnu á lokamínútum leiksins.

Eftir leikinn mótmælti Milan Stefán dómgæslu Þorvaldar Árnasonar með þeim afleiðingum að hann fékk að líta rauða spjaldið. Aga- og úrskurðarnefnd KSÍ úrskurðaði hann í tveggja leikja bann í kjölfarið.

„Þetta sem gerðist reyndist mér bara of mikið allt saman," sagði Milan Stefán. „Ég var reiður eftir leikinn og fékk refsingu fyrir mína framkomu. Það er allt í lagi með það. En dómarinn á líka að fá sína refsingu. Það gerist í öllum öðrum löndum heimsins að dómurum sé refsað fyrir slæma frammistöðu. Sumir fá ekki að dæma í 1-2 umferðir, eru settir á línuna eða á leik í neðri deildunum."

„Þannig var það oft í mínu heimalandi, gömlu Júgóslavíu, þegar ég var að spila þar. Þannig á það að vera hér. Ég vil bara að eitt gangi yfir alla."

„Við áttum að fá tvö víti í fyrri hálfleik í leiknum gegn Fjölni. Svo var dæmt víti á okkur og það var öllum ljóst að það var ekki vítaspyrna. Ég bara gat ekki haldið ró minni vegna þessa."

„Á mínum sautján árum á Íslandi hef ég lengst af starfað sem þjálfari í einni eða annarri mynd. Nú að undanförnu hef ég verið í þessu í fullu starfi og svo í þessum eina leik getur dómarinn kostað okkur allt það starf sem við höfum unnið í allan vetur."

Góðvinur Jankovic, Luka Kostic, mun taka við þjálfun Grindavíkur og mun sá fyrrnefndi starfa áfram sem aðstoðarmaður hans. „Við spiluðum saman í sex ár í Króatíu og hann hjálpaði mér að koma til Íslands árið 1992. Sú hugmynd að við myndum vinna saman vaknaði fyrr í vetur en varð ekki að veruleika fyrr en nú. Luka er frábær þjálfari og liðið er í góðum höndum."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×