Enski boltinn

Guðjón: Það verða engir farþegar hjá Crewe á næstu leiktíð

Nordic Photos/Getty Images

Leikmenn Crewe Alexandra gangast í dag undir ítarleg þolpróf hjá Guðjóni Þórðarsyni og félögum áður en þeir fara í sumarleyfi.

Crewe þurfti að bíta í það súra epli að falla úr C-deildinni um síðustu helgi og Guðjón hefur strax lagt línurnar fyrir næstu leiktíð í D-deildinni.

Leikmenn eiga að mæta til æfinga þann 29. júní nk. og Guðjón hefur varað þá við því að mæta þangað í góðu standi - ella þurfi þeir að leita sér að annari vinnu.

"Leikmennirnir eru búnir að vera í þolprófum í vikunni og nú vitum við meira um líkamlegt ástand þeirra. Við höfum séð niðurstöður sem komu okkur á óvart og sumir leikmanna okkar komu illa út úr þessu og þurfa að bæta sig," sagði Guðjón.

"Þeir verða að koma hingað í sumar í miklu betra standi en þeir eru í núna og það mun hafa afleiðingar í för með sér ef svo verður ekki. Menn verða að vera í góðu standi þegar þeir eru að spila. Þeir eru heppnir að fá borgað fyrir að spila fótbolta og verða að færa fórnir í samræmi við það," sagði Guðjón.

"Það er lágmark að atvinnumenn séu í formi og þeir fá strangar leiðbeiningar til að fylgja í sumar. Tölurnar ljúga ekki og menn geta ekki átt von á því að sleppa auðveldlega frá vinnu sinni hér lengur. Ef menn geta ekki skaffað það sem við þurfum frá þeim, mega þeir fara. Ég hef ekki efni á að vera með neina farþega hér á næstu leiktíð," sagði Guðjón.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×