Enski boltinn

Barton orðaður við Blackburn

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Joey Barton eftir brotið á Xabi Alonso.
Joey Barton eftir brotið á Xabi Alonso. Nordic Photos / Getty Images

Joey Barton var í morgun orðaður við Blackburn í enskum fjölmiðlum en ólíklegt þykir að hann muni spila með Newcastle á nýjan leik.

Barton fékk að líta rauða spjaldið í leik Newcastle gegn Liverpool um helgina eftir fólskulegt brot á Xabi Alonso.

Eftir leikinn lentu þeim Barton og Alan Shearer, stjóra Newcastle, saman í búningsklefanum. Shearer var þá nýbúinn að ausa úr skálum reiði sinnar yfir Barton í fjölmiðlum og hélt svo áfram í búningsklefanum.

Barton svaraði fullum hálsi og sagði hann ömurlegan þjálfara með ömurlegar leikaðferðir. Iain Dowie, aðstoðarmaður Shearer, skakkaði leikinn en fékk þá sjálfur að kenna á fúkyrðaflaumi Barton.

Í gærmorgun gaf félagið svo það út að Barton hefði verið vikið frá félaginu þar til annað kemur í ljós. Enskir fjölmiðlar segja að lögfræðingar hafi verið kallaðir til í þeim tilgangi að skoða hvort hægt sé að segja upp samningi Barton.

Hann á þrjú ár eftir af samningi sínum við félagið og þiggur 55 þúsund pund í vikulaun.

Barton mátti dúsa í fangelsi fyrir líkamsárás á götum Liverpool í fyrra og var svo dæmdur í langt bann í haust fyrir að ráðast á fyrrum liðsfélaga sinn á æfingu hjá Manchester City.

Þrátt fyrir það neitaði Newcastle að gefast upp á honum og gaf honum áfram tækifæri. Þessu tækifæri hefur Barton nú klúðrað og ljóst að hann spilar ekki aftur með Newcastle, að minnsta kosti á meðan að Alan Shearer er stjóri.

Stjórnarmenn Blackburn eru sagðir tvístiga í að fá Barton en Sam Allardyce, stjóri liðsins, fékk vandræðagemlinginn El-Hadji Diouf til félagsins og hefur það gengið þokkalega.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×