Enski boltinn

Vona að Fabregas verði lengur en ég hjá Arsenal

AFP

Arsene Wenger, stjóri Arsenal, gefur lítið út á orðróm sem verið hefur á kreiki um að hann muni taka við starfi Mark Hughes hjá Manchester City í sumar.

Wenger hefur oft verið orðaður við hin og þessi félög síðan haann tók við Arsenal árið 1996, en hann er ekki einn um að vera orðaður við City. Miðjumaðurinn Cesc Fabregas hefur einnig verið sagður í sigtinu hjá hinu nýríka Manchester-félagi.

"Ég vona að Fabregas verði hérna lengur en ég, því ég trúi því að hann eigi eftir að spila með liðinu næsta áratuginn. Cesc ætti að vera ein af grunnstoðum félagsins og ég vona að byggt verði í kring um menn eins og hann. Hann er bara 22 ára gamall núna og hann verður enn á fullu þegar hann verður 32 ára," sagði Wenger.

Hann neitaði líka orðrómi um að hann væri sjálfur á förum frá Arsenal. "Ég hef aldrei leyft neinum að draga hollustu mína við Arsenal í efa, hvort sem gengur vel eða illa. Manchester City er með góðan stjóra í Mark Hughes. Hann er að standa sig vel og félagið verður að halda tryggð við hann. Ég er samningsbundinn til 2011 og á ekki von á að fara neitt," sagði Wenger.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×