Enski boltinn

Webb aldrei liðið verr á ferlinum

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Webb er talinn af mörgum vera besti dómarinn á Englandi.
Webb er talinn af mörgum vera besti dómarinn á Englandi. Nordic Photos / AFP

Howard Webb knattspyrnudómari segir að sér hafi aldrei liðið verr á sínum ferli en þegar að Wolves skoraði annað mark sitt í bikarleiknum gegn Birmingham í gærkvöldi.

Webb varð óvart fyrir boltanum og stýrði honum til Andy Keogh, sóknarmanns Wolves, sem varð svo til þess að Sam Vokes skoraði síðara mark Wolves í 2-0 sigri liðsins.

„Mér fannst það hræðilegt að hafa áhrif á mark með þessum máta," sagði Webb í samtali við heimasíðu Birmingham. „Mér hefur sennilega aldrei liðið verr á ferlinum. Maður vill helst að jörðin gleypi sig á slíkum augnablikum."

Þetta var þó ekki eina umdeilda atvikið í leiknum þar sem að Webb dæmdi ekki aukaspyrnu þegar brotið var á Marcus Bent, leikmanni Birmingham, í teignum.

„Vítið var næstum verra atvik en hitt. En ég hef rætt við forráðamenn Birmingham sem hafa tekið þessu afar vel og ekki sýnt mér neina óvild."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×