Enski boltinn

Rooney verður frá í þrjár vikur

NordicPhotos/GettyImages

Sir Alex Ferguson var að vonum kátur með 1-0 sigur sinna manna í Manchester United á Wigan í leik kvöldsins í ensku úrvalsdeildinni. Sigurinn var liðinu þó dýr því markaskorarinn Wayne Rooney meiddist í leiknum.

Rooney skoraði það sem reyndist svo vera sigurmark leiksins strax eftir rúmar 50 sekúndur, en nokkrum mínútum síðar fór hann meiddur af velli og hélt um lærið á sér.

"Meiðsli á aftanverðu læri þýða venjulega þrjár vikur frá keppni og það eina sem við getum vonað er að hann verði ekki lengur frá en það. Það er ekkert við þessu að gera," sagði Ferguson um meiðsli framherjans, sem voru ekki þau einu í kvöld.

"Það meiddust nokkrir menn í kvöld og höltruðu síðustu 25 mínúturnar, ég var að verða orðinn áhyggjufullur. Carlos Tevez kom inn fyrir Rooney og stóð sig vel, en hann meiddist líka svo þetta var erfitt í kvöld," sagði Ferguson.

"Þessi leikur var eins erfiður og ég hafði búist við. Við urðum virkilega að hafa fyrir þessu og sýna góðan karakter. Við höfum stundum náð að vinna svona leiki 1-0 í gegn um árin og það hafa oft reynst mjög mikilvægir leikir," sagði stjórinn og hrósaði Nemanja Vidic sérstaklega.

"Vidic var frábær og var dæmi um þann karakter sem þurfti til að vinna þennan leik. Wigan spilaði mjög vel í kvöld. Nú verðum við að láta kné fylgja kviði í erfiðum útileik gegn Bolton," sagði Ferguson.

United mætir Bolton á Reebok um helgina þar sem sigur kemur liðinu í efsta sæti deildarinnar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×