Innlent

Viðræðuhópar um ESB og stjórnsýslu

Forysta stjórnarflokkanna fundaði í Norræna húsinu í gær.
Forysta stjórnarflokkanna fundaði í Norræna húsinu í gær. Mynd/Pjetur

Ákveðið var að skipa tvo starfshópa um sértæk málefni á fyrsta formlega stjórnarmyndunarfundi forystumanna Samfylkingarinnar og VG í gær. Fundinn sátu formenn og varaformenn flokkanna, auk aðstoðarmanna.

Varaformennirnir Dagur B. Eggertsson og Katrín Jakobsdóttir leiða viðræðuhóp um Evrópumálin og eiga ráðherrarnir Össur Skarphéðinsson og Ögmundur Jónasson einnig sæti í hópnum.

Öðrum hópi verður falið að fjalla um breytingar á stjórnkerfinu en hann hefur ekki verið skipaður. Þá er í bígerð að koma á fót starfshópum um efnahags- og ríkisfjármál annars vegar og atvinnumál hins vegar.

Lausn á ólíkum sjónarmiðum flokkanna í Evrópumálunum er lykilmál stjórnarmyndunarviðræðnanna. Finnist hún ekki eru hverfandi líkur á að af samstarfi flokkanna verði.

Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra sagðist í gærkvöldi bjartsýn á að lausn finnist á Evrópu-ágreiningnum og kvaðst bjartsýnni eftir fundinn með VG í Norræna húsinu en fyrir.

„Eitt af mikilvægustu verkefnunum framundan er að ná þjóðarsátt um efnahagslegan og félagslegan stöðugleika fyrir heimili og fyrirtæki og um aðgerðir gegn atvinnuleysi, segir Jóhanna og vísar til aðila vinnumarkaðarins og sveitar-félaga.

Steingrímur J. Sigfússon, formaður VG, lítur á það sem sögulega skyldu að koma stjórninni á fót. „Það er eindreginn vilji og gagnkvæmur í báðum flokkum til að láta þetta sögulega tækifæri til að mynda fyrstu hreinu velferðarstjórnina okkur ekki úr greipum ganga," segir hann. Þingflokkar stjórnarflokkanna lögðu blessun sína yfir viðræðurnar á fundum í gær og veittu formönnum sínum umboð til að leiða þær til lykta. Á fundi VG fór fram opinská umræða um Evrópumálin og komu fram mjög skiptar skoðanir; allt frá því að sækja aldrei um aðild yfir í að sækja strax um aðild. Þær tvær leiðir voru þó slegnar út af borðinu.

Báðir flokkarnir hafa á stefnuskrá sinni að innkalla aflaheimildir. Því er líklegt að róttækar breytingar verði á kvótakerfinu. Steingrímur segir að yfir það mál verði sest eins og önnur. Jóhanna tekur undir það. „Við erum örugglega að horfa til þess að þessi ríkisstjórn mun skoða breytingar á sjávarútvegsstefnunni og reyna að ná sátt um leiðir í þeim efnum."

kolbeinn@frettabladid.is






Fleiri fréttir

Sjá meira


×