Innlent

Barnabarnið beið í bílnum

Mennirnir voru leiddir fyrir dómara í Héraðsdómi Reykjavíkur í gær.Fréttablaðið/vilhelm
Mennirnir voru leiddir fyrir dómara í Héraðsdómi Reykjavíkur í gær.Fréttablaðið/vilhelm

Talið er að þrjár konur hafi beðið í bíl fyrir utan hús eldri hjóna á Arnarnesinu á laugar-dagskvöld á meðan tveir karlmenn fóru inn og rændu fólkið með vopnavaldi. Ein kvennanna er barnabarn fólksins, samkvæmt heimildum Fréttablaðsins. Hún hefur verið í óreglu.

„Við höfum það alveg þokkalegt miðað við aðstæður,“ segir Ásgerður Helgadóttir. Hún segir erfitt til þess að hugsa sé það rétt að barnabarn hennar tengist málinu.

Annar ræningjanna sló Ásgerði í höfuðið, en hún segist öll að koma til. Það sé léttir að árásarmennirnir sitji bak við lás og slá eftir snör viðbrögð lögreglu.

Mennirnir, sem voru grímuklæddir og vopnaðir hnífum, hótuðu fólkinu lífláti. Þeir voru úrskurðaðir í gæsluvarðhald til 19. maí í Héraðsdómi Reykjavíkur í gær. Lögregla fór fram á varðhaldið vegna almannahagsmuna, segir Friðrik Smári Björgvinsson, yfirlögregluþjónn rannsóknardeildar hjá Lögreglu höfuðborgarsvæðisins.

Tveir karlar og tvær konur voru handtekin vegna málsins á mánudag. Karlarnir og önnur konan játuðu þátt sinn í málinu. Þá var kona handtekin í gær, og játaði hún einnig að tengjast málinu. Konunum var sleppt úr haldi í gær.

Málið er nú talið upplýst að mestu, en eftir er að hnýta lausa enda, segir Friðrik Smári.- bj, jss




Fleiri fréttir

Sjá meira


×