Innlent

Íbúfen ófáanlegt án lyfseðils

Íbúfen í 400 mg styrkleika hefur verið illfáanlega í apótekum undanfarið.
Íbúfen í 400 mg styrkleika hefur verið illfáanlega í apótekum undanfarið.
„Þetta er mest selda verkjalyfið og það er frekar óheppilegt að það vanti,“ segir Magnús Steinþórsson, rekstrarstjóri Lyfjavers, en Íbúfen, mest selda verkjalyf landsins hefur verið ófáanlegt án lyfseðils undanfarið frá báðum framleiðendum.

Magnús segir að þær umbúðir af verkjalyfinu, sem algengast er að fólk kaupi, 400 mg styrkleiki í 30 stykkja umbúðum hafi verið ófáanlegar, bæði frá Actavis og frá Portfarma, sem selur samheitalyfið Íbúprófen. Hann segir að eitthvað sé nú til af 600 mg styrkleika, en það er ekki selt án lyfseðils. „Menn hafa getað bjargað sér, það eru til önnur lyf eins og Voltaren og Nabroxen,“ segir Magnús.

Hann segir ekki hægt að tengja þennan skort við flensufaraldurinn enda noti flensusjúklingar frekar hitalækkandi lyf eins og Paracetamol. Hjördís Árnadóttir, hjá Actavis, segir að tafir hafi orðið á afhendingu lyfjanna frá birgjum. Þess vegna hafi vantað ákveðnar stærðir af pakkningum, sem seldar eru án lyfseðils. Málið sé þó að leysast, verið er að dreifa litlum skömmtum til apóteka og framboðið verður komið í eðlilegt horf eftir nokkrar vikur.

Paracetamol-verkjastílar fyrir börn hafa verið ófáanlegir um tíma í 125 mg styrkleika, að sögn Magnúsar. Hjördís segir að sá skortur sé úr sögunni því lyfið er komið til landsins og í dreifingu.- pg



Fleiri fréttir

Sjá meira


×