Enski boltinn

Taylor er lítt hrifinn af Kaka-ævintýrinu

NordicPhotos/GettyImages

Gordon Taylor, yfirmaður samtaka atvinnuknattspyrnumanna á Englandi, setur spurningamerki við fyrirhuguð kaup Manchester City á miðjumanninum Kaka frá AC Milan.

Sagt er að City sé við það að landa Brasilíumanninum á upphæð sem nemi yfir 100 milljónum punda - upphæð sem á sér enga hliðstæðu í sögunni.

"Það er dálítið undarlegt að félag skuli vera að íhuga að kaupa mann á 100 milljónir punda í miðri kreppu. Við verðum að spyrja okkur hvaða skilaboð er verið að senda út með þessu," sagði Taylor.

Hann hefur áhyggjur af unglingastarfi Manchester City í framtíðinni ef eigendur félagsins ætla að stunda viðskipti á borð við þessi og hefur líka áhyggjur af framtíð félagsins alls.

"Þetta er voðalega spennandi fyrir stuðningsmenn City, en hvað gerist ef moldríkir eigendur snúa sér að einhverju öðru og skilja félagið eftir í fjárhagsvandræðum? Kreppan hefur áhrif á knattspyrnuna líka og þó City virðist vera undantekning á þeirri reglu, ber mönnum í knattspyrnunni að gæta hófs á þessum tímum."










Fleiri fréttir

Sjá meira


×