Enski boltinn

Rio Ferdinand stendur að útgáfu vefrits

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar

Rio Ferdinand, varnarmaðurinn skæði hjá Manchester United, mun frá og með næsta mánuði gefa út vefrit á heimasíðunni sinni sem helgað verður íþróttum, lífstíl, fræga fólkinu og fleira í þeim dúr.

Vefritið mun bera nafnið Rio og er markhópurinn karlmenn á aldrinum 16-35 ára. Meðal þess sem verður fjallað um í blaðinu er íþróttir, tónlist, tíska, bílar, ferðalög og margt fleira.

Strax í fyrstu útgáfunni verða viðtöl við tónlistarmanninn 50 Cent sem og leikarann Mickey Rourke.

Rourke hefur verið að gera það gott í kvikmyndinni The Wrestler sem er væntanleg í kvikmyndahús hér á landi og 50 Cent er þessa dagana að leika í kvikmyndinni Dead Man Running en Ferdinand er einn framleiðandi hennar.

Ferdinand hefur verið duglegur að sinna öðrum verkefnum en knattspyrnunni og stofnaði árið 2005 plötuútgáfu í samstarfi við æskufélaga sinn. Sjálfur hefur hann rappað inn á plötur og er þessa dagana að vinna að heimildarmynd svo eitthvað sé nefnt.

Hægt er að fá frekari upplýsingar um vefritið Rio á heimasíðu hans.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×