Enski boltinn

Dalglish rífur þögnina um Hillsborough-slysið

Elvar Geir Magnússon skrifar

Kenny Dalglish hefur tjáð sig í fyrsta sinn opinberlega um hið fræga Hillsborough-slys. Dalglish var knattspyrnustjóri Liverpool á þessum tíma en hefur aldrei viljað tjá sig um atvikið.

Alls 96 stuðningsmenn tróðust undir og létu lífið á Hillsborough, heimavelli Sheffield Wednesday, þegar Liverpool mætti Nottingham Forest í undanúrslitum FA bikarsins þann 15. apríl 1989.

Dalglish segir að enginn ætti að gleyma þessu atviki. Hann telur að lögreglan og enska knattspyrnusambandið hafi gert mistök með því að íhuga ekki að fresta leiknum.

Stuðningsmenn Liverpool komust ekki á völlinn fyrir upphafsflautið og var þeim hleypt inn á svæði sem þegar var fullt. Áhorfendur sem voru fremst í þeirri stúku ýttust á stálgirðingu. Á þessum tíma voru þannig girðingar á flestum völlum á Englandi til að hindra aðgengi áhorfenda að vellinum.

„Það hefði verið einfaldast að fresta leiknum örlítið. Það hefði ekki verið vandamál fyrir neinn. Hefði lögreglan beðið enska knattspyrnusambandið um að fresta leiknum hefðu bæði lið samþykkt," segir Dalglish.

„Við sáum til þess að á öllum jarðarförum þeirra sem létu lífið í slysinu væri fulltrúi frá Liverpool-liðinu. Ég held að fjölskyldurnar hafi virt það. Strákarnir skiptu sér ekki af athöfninni, sátu bara aftast en vildu vera þarna. Nærvera þeirra skipti máli."

Dalglish veitti viðtal um Hillsborough-slysið vegna heimildarmyndar sem verið er að vinna í tilefni þess að 20 ár eru liðin frá slysinu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×