Enski boltinn

Benitez óhress með jafnteflið við Stoke

NordicPhotos/GettyImages

Rafa Benitez knattspyrnustjóri Liverpool var að vonum frekar ósáttur við að þurfa að sætta sig við jafntefli við Stoke City í ensku úrvalsdeildinni og ná þar með ekki að setja aukna pressu á Man Utd og Chelsea.

Benitez var beðinn um að lýsa skoðun sinni á leiknum og einnig hvort reiðilestur hans út af Alex Ferguson í gær hefði mögulega setið í hans mönnum.

"Við erum ekki sáttir við þessi úrslit. Við vissum að þetta yrði erfiður leikur en við náðum ekki að stjórna gangi hans. Ef maður nær ekki tökum á leiknum, nær maður ekki að vinna hann," sagði Benitez.

"Það er erfitt að spila á móti Stoke á þessum velli. Þeir eru mjög hættulegir í hornum og innköstum og við gáfum þeim allt of mörg færi á þeim vettvangi," sagði Spánverjinn.

Hann var því næst spurður út í harkalega skammarræðu sína út í Alex Ferguson og hvort hún sæti í leikmönnum Liverpool.

"Ég held að það sem ég segi í blöðunum hafi ekki áhrif á liðið. Það er alltaf mikilvægt að sigra þegar maður er í toppsætinu og það sem ég sagði breytir því engu."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×