Fótbolti

Brjálæðingurinn tryggði Argentínu dramatískann sigur

Ómar Þorgeirsson skrifar
Diego Maradona fagnar sigurmarki Martin Palermo í Buenos Aires í gærkvöldi.
Diego Maradona fagnar sigurmarki Martin Palermo í Buenos Aires í gærkvöldi. Nordic photos/AFP

Argentínska landsliðið undir stjórn Diego Maradona vann mikilvægan 2-1 sigur gegn Perú í Suður-Ameríkuriðli undankeppni HM 2010 í Buenos Aires seint í gærkvöldi.

Hinn gamalreyndi Martin Palermo, sem jafnan er kallaður El Loco eða brjálæðingurinn í heimalandinu, stal senunni þegar hann kom inn á sem varamaður og skoraði sigurmarkið seint í uppbótartíma.

Gonzalo Higuain hafði komið Argentínu yfir í leiknum í upphafi síðari hálfleiks en það leit allt út fyrir að Maradona yrði fyrir enn einni martröðinni í þjálfarastarfinu þegar Hernan Rengifo jafnaði leikinn á 90. mínútu.

Þá kom Palermo til skjalana og skoraði sigurmarkið en hann hafði ekki spilað með landsliði Argentínu í tíu ár þegar Maradona valdi hann í hópinn.

Með sigrinum er Argentína í fjórða sæti riðilsins og spilar sannkallaðan úrslitaleik við Úrúgvæ í Montevideo á miðvikudaginn kemur en sigurvegarinn úr leiknum fer beint á HM. Ef liðin gera jafntefli gæti Ekvador skotist upp fyrir bæði lið með sigri gegn Chile.












Fleiri fréttir

Sjá meira


×