Innlent

Segir ríkisborgaraprófin mismuna á margan hátt

Hafsteinn Gunnar Hauksson skrifar
Ingibjörg Hafstað, yfirmaður íslenskukennslu Alþjóðahússins.
Ingibjörg Hafstað, yfirmaður íslenskukennslu Alþjóðahússins. Mynd/Valli

„Þegar ráðuneyti segir að prófin eigi að vera hjálpartæki fyrir innflytjendur til að aðlaga sig en ekki sía, þá fellur það náttúrulega um sjálft sig," segir Ingibjörg Hafstað, yfirmaður íslenskukennslu í Alþjóðahúsinu. Hún er afar óánægð með ríkisborgaraprófin í íslensku sem lögð voru fyrir í fyrsta sinn í júní og ætlar að fá þá sem féllu til að kæra prófin.

Alls féllu tólf umsækjendur á prófinu og fá því ekki ríkisborgararétt líkt og þeir stefndu að. Ingibjörg segir prófið mismuna umsækjendum á margan hátt.

„Það er verið að sigta út ákveðinn hóp fólks sem ekki fær ríkisborgararétt," segir Ingibjörg.

Hún nefnir sem dæmi að Asíubúar sem tali svokölluð tónamál eigi mun erfiðara með að læra íslensku en Evrópubúar, enda tungumál málsvæðanna í grundvallaratriðum ólík og stafróf þeirra sömuleiðis. Því til stuðnings segir hún meirihluta þeirra sem féllu á ríkisborgaraprófinu vera Víetnama, þó dómsmálaráðuneytið hafi enn ekki staðfest það.

Þá segir hún illa menntað og fullorðið fólk eiga erfiðara með að ná prófinu en aðrir. Ingibjörg gagnrýnir einnig reglugerðina um prófin og segir hana útiloka ólæsa frá því að fá ríkisborgararétt.

„Það er stefna stjórnvalda að ólæsir fái ekki ríkisborgararétt. Það er ekki hægt að túlka þessa grein öðruvísi," segir Ingibjörg og vísar til fimmtu greinar reglugerðarinnar.

Þar segir: „Ekki er gert ráð fyrir sérstakri aðstoð í próftökunni við þá sem eru óskrifandi eða ólæsir á latneskt letur ef ætla má að þeir gætu náð þeirri færni með hefðbundnu lestrar- og skriftarnámi."

„Það þýðir ekki að segja við ólæsan einstakling: Reyndu samt."

„Ef þú ert illa læs á þitt móðurmál og þarft svo að læra nýtt letur, þá er eiginlega ómögulegt að verða sæmilega læs á mál sem þú kannt ekki.," segir Ingibjörg. Hún gerði að eigin sögn athugasemdir við reglugerðina þegar hún var samin sem ekki voru teknar til greina.

Ingibjörg reynir nú að hafa uppi á þeim einstaklingum sem féllu á ríkisborgaraprófinu og fá þá til að kæra prófið til umboðsmanns alþingis fyrir brot á jafnræðisreglu.
Tengdar fréttir

Tólf féllu á fyrsta ríkisborgaraprófinu í íslensku

Alls féllu tólf manns á fyrsta ríkisborgaraprófinu í íslensku og fá því ekki ríkisborgararétt eins og þeir stefndu að. Alls þreyttu 206 manns prófið, sem var framkvæmt á tveggja vikna tímabili í júní.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×

Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.