Fótbolti

Chíle komið á lokakeppni HM - löng bið loks á enda

Ómar Þorgeirsson skrifar
Waldo Ponce fagnar í leikslok í gærkvöldi.
Waldo Ponce fagnar í leikslok í gærkvöldi. Nordic photos/AFP

Leikmenn Chíle höfðu ærna ástæðu til þess að fagna eftir frækinn 2-4 sigur liðsins gegn Kólumbíu í Suður-Ameríkuriðli undankeppni HM 2010 í Medellin í Kólumbíu seint í gærkvöldi.

Með sigrinum gulltryggðu Chíle sér þriðja sæti riðilsins og farseðilinn á lokakeppnina í Suður-Afríku en Chíle hefur ekki komist á lokakeppni HM síðan árið 1998 þegar keppnin fór fram í Frakklandi.

Waldo Ponce, Humberto Suazo, Jorge Valdivia og Fabian Orellana skoruðu mörk Chíle en fyrir heimamenn skoraði Giovanni Moreno auk þess sem Arturo Vidal gerði sjálfsmark. Með tapinu urðu draumar Kólumbíumanna að komast á lokakeppnina úti.

Argentína, Úrúgvæ og Ekvador berjast um fjórða sæti riðilsins sem gefur þátttökurétt á lokakeppninni en fimmta sæti gefur sæti í umspili gegn liði í fjórða sæti Norður -og mið Ameríkuriðils.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×