Enski boltinn

Gazza edrú í þrjá mánuði

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Paul Gascoigne.
Paul Gascoigne. Nordic Photos / Getty Images

Paul Gascoigne segir í viðtali við enska fjölmiðla að hann hafi nú verið edrú í þrjá mánuði og að hann líti björtum augum á framtíðina.

Gascoigne er nýkominn úr meðferð en hann hefur lengt mátt glíma við þunglyndi, áfengis- og eiturlyfjafíkn.

„Ég var á leiðinni í hyldýpið en nú er framtíðin björt. Ég get ekki sagt að ég muni aldrei aftur drekka áfengi en segi þó að ég fékk mér ekki að drekka í dag og vonandi heldur ekki á morgun."

Gascoigne komst í fréttirnar á síðasta ári er hann var þvingaður inn á geðspítala þar sem óttast var um líf hans. Hann sagði árið 2008 hafa verið það versta á hans ævi og viðurkenndi að hafa drukkið ótæpilega eftir að hann gekkst undir aðgerð í desember árið 2007.

„Ég man ekki nákvæmlega af hverju ég fékk mér að drekka eftir aðgerðina. Ég man bara að það voru jól og mig langaði að fá mér drykk. Ég drakk nokkur vínglös og svo hélt það bara áfram."

„Viku síðar var ég hættur að geta hugsað um sjálfan mig. Ég tékkaði mig því inn á hótel þar sem drykkjan versnaði til muna. Ég drakk hverja vínflöskuna á fætur annarri og litlar ginflöskur úr miníbarnum. En ég varð aldrei drukkinn - það er erfitt fyrir áfengissjúklinga."

Hann óttaðist að hann myndi binda enda á líf sitt og hringdi því í Önnu, systur sína. Skömmu síðar kom starfsfólk hótelsins að honum sofandi í baðkarinu.

„Ég var algjörlega niðursokkinn. Anna hélt að ég myndi vinna mér mein og það næsta sem ég vissi að fimm lögreglumenn drógu mig nakinn úr baðkarinu. Ég held að ég hafi beðið þá um leyfi til að klára baðið þar sem ég var ekki búinn að þvo hárið mitt."

„Ég vildi ekki binda enda á líf mitt en ég var svo mikið niðri fyrir að ég sá ekki fyrir mér að ég gæti unnið mig út úr þessum aðstæðum."

„Ég trúði þessu ekki. Ég var eitt sinn hetja allra landsmanna og var nú á geðspítala. Ég hafði aldrei skammast mín jafnmikið."










Fleiri fréttir

Sjá meira


×