Fótbolti

Dunga: Verður eins og Brasilía gegn Brasilíu

Hjalti Þór Hreinsson skrifar
Dunga í Suður-Afríku í dag.
Dunga í Suður-Afríku í dag. Nordicphotos/GettyImages
Brasilía er í dauðariðlinum á HM, ásamt Portúgal, Fílabeinsströndinni og Norður-Kóreu. Brasilía er ásamt Spánverjum talin vera sigurstranglegasta þjóðin fyrir mótið.

Fílabeinsstrendingar eru taldir vera með besta lið Afríku og Portúgalar eru með marga frábæra leikmenn innan sinna raða. Heyra mátti á áhorfendum í salnum, sem stundu margir þegar G-riðillinn var tilbúinn, að dauðariðillinn væri klár.

„Þetta er mjög áhugaverður riðill," sagði Dunga, landsliðsþjálfari Brasilíu. „Gegn Portúgal, miðað við leikmennina þeirra og leikstílinn þeirra verður þetta eins og Brasilía sé að spila gegn Brasilíu."

„Stóra spurningamerkið er Norður-Kórea. Ég þarf að skoða það nánar. Fílabeinsströndin er með mjög sterkt lið," sagði Dunga.

Vahid Halilhodzic, þjálfari Fílabeinsstrandarinnar, sagði að liðið hefði fengið erfiðasta riðilinn en væri „tilbúið að koma á óvart."

Þjálfari Portúgala, Carlos Queiroz, sagði að Brasilíumenn væru sigurstranglegastir en leikurinn gegn Fílabeinsströndinni væri hreinn úrslitaleikur um annað sætið.

„Mér finnst við eiga góða möguleika. Auðvitað eru allir riðlar erfiðir fyrir öll lið. Við verðum að vinna Fílabeinsströndina til að komast áfram," sagði þjálfarinn.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×