Innlent

Þvertaka fyrir málþóf

Heimir Már Pétursson skrifar

Fullkomin óvissa ríkir um hvenær fjárlög og skattafrumvörp ríkisstjórnarinnar koma á dagskrá Alþingis vegna togstreitu stjórnarflokkanna og stjórnarandstöðunnar um Icesave. Þingmenn stjórnarandstöðunnar hafa talað um Icesave fyrir hálftómum sal í rúmlega þrjátíu klukkustundir.

Þingmenn ræddu um Icesave í fjörtíu og þrjár og hálfa klukkustund á sumarþinginu og eru nú á haustþingi komnir langt með að tala jafn lengi um málið. Önnur umræða hófst um málið á fimmtudag og stóð t.d. fram til klukkan eitt síðustu nótt og stendur enn yfir. Á hádegi í dag var búið að ræða málið í 39 og hálfa klukkustund, þar af höfðu stjórnarandstöðuþingmenn talað í 33 klukkustundir oftast undir hálftómum þingsal.

Illugi Gunnarsson þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins þvertekur fyrir að stjórnarandstaðan sé í málþófi. „Þetta mál hefur mikið breyst frá því það kom inn í þingið í haust þegar við ákváðum fyrirvarana," segir Illugi. Það sé mat stjórnarandstöðunnar að fyrirvararnir séu því miður að engu orðnir.

Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra leggur áherslu á að klára Icesave málið fyrir mánaðamót og miðað við þann fjölda sem enn er á mælendaskrá um Icesave verður væntanlega fundað fram á kvöld og á morgun.

Þegar hlustað er á umræðurnar um Icesave finnst mönnum eins og þar sé aftur og aftur verið að segja sama hlutinn. Illugi að sumt sé þannig eðli málsins samkvæmt.

„Þingmenn koma hér upp til að tjá sína skoðun og þótt menn séu saman í flokkum eru þeir líka hér inni sem einstakir þingmenn og eru kosnir á Alþingi til að segja sína skoðun," segir Illugi.

Stjórnarandstaðan hefur boðið ríkisstjórninni að taka skattafrumvörpin og önnur áherslumál ríkisstjórnarinnar fyrir og afgreiða þau með skjótum hætti til nefndar og hefja svo Icesaveumræðuna á nýjan leik.

Fjármálaráðherra segir ekki hægt að ganga að þessu tilboði nema einnig sé samið um hvernig ljúka eigi málum í heild sinni. „Og þar á meðal tímasett það hvenær við getum klárað Icesavemálið einhvern tíma á næstu dögum. Það er komið á dagskrá og úr nefnd. Þetta er eitt hvað þaulræddasta mál seinni tíma á þingi. Þannig að ég held að það sé ekki margt í viðbót að tala um," segir Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×