Lífið

Karlar á toppnum

óstöðvandi stieg
<B>Bryndís Loftsdóttir</B> segir að kiljuútgáfan af Karlar sem hata konur hafi hreinlega verið óstöðvandi í ár. <B>Stieg Larsson</B> stöðvaði sigurgöngu <B>Arnaldar Indriðasonar</B> á árslista Eymundsson.
óstöðvandi stieg <B>Bryndís Loftsdóttir</B> segir að kiljuútgáfan af Karlar sem hata konur hafi hreinlega verið óstöðvandi í ár. <B>Stieg Larsson</B> stöðvaði sigurgöngu <B>Arnaldar Indriðasonar</B> á árslista Eymundsson.

Kiljuútgáfan af Körlum sem hata konur eftir Stieg Larsson er mest selda bók ársins hjá Eymundsson. Larsson hefur þar með slegið Arnald Indriðason af toppnum sem hefur setið þar undanfarin tvö ár.

Að sögn Bryndísar Loftsdóttur hjá Eymundsson seldist bók Stiegs Larsson miklu betur en Svörtuloft.

„Það var bók sem kom út í byrjun þessa árs og er búin að seljast og seljast og seljast,“ segir Bryndís um Karlar sem hata konur. „En það var ekki fyrr en á þessu ári sem sjónvarpsþátturinn Kiljan fjallaði um þessa bók að þetta rauk af stað. Bókinni gekk rosalega illa fyrir jólin í fyrra þegar hún kom út.

Bóksalar kveiktu alveg á þessu og fannst þetta frábær bók en það gekk svo illa að selja hana því þetta er svo slæmur titill. Maður gefur ekki einhverjum sem þú elskar Karlar sem hata konur í jólagjöf,“ segir Bryndís og hlær.

„Svo þegar hún kom út í kilju og Egill, Páll Baldvin og Kolbrún kvittuðu undir að þetta væri prýðisbók þá rauk hún af stað og það var ekkert sem stoppaði hana.“

Samkvæmt bókaútgáfunni Bjarti hefur kiljan selst í um tuttugu þúsund eintökum á landinu öllu. Næsta vor er síðan von á hinum tveimur bókunum í Millenium-þríleiknum í kiljuforminu, sem væntanlega eiga eftir að seljast eins og heitar lummur.

Arnaldur var á toppnum í fyrra með Myrká og árið þar áður með Harðskafa en í ár varð hann loksins að játa sig sigraðan.

„Bókin hans Arnaldar er mjög fín en það er erfitt að halda sér endalaust á toppnum,“ segir Bryndís. „Hann er heldur ekki mikill markaðskarl, það verður seint á hann borið. Aðrir sem berast meira á eru menn eins og Egill Gilzenegger sem gerði þetta bara með handaflinu. Bókin hans (Mannasiðir) seldist glimrandi vel og var fjórða mest selda bókin í desember.“

Bryndís segir að bóksalan í ár hafi yfirhöfuð verið ágæt, þar sem þýddar glæpasögur og bækurnar um efnahagshrunið hafi selst sérlega vel. Mestur samdráttur var í sölu á unglingabókum og spilaði þar inn í að Harry Potter- og Eragon-bókaflokkarnir voru fjarri góðu gamni.

„Það vantar hvatningu fyrir íslenska höfunda að skrifa unglingabækur. Það er lítil hvatning í formi Íslensku bókmenntaverðlaunanna eða rithöfundalauna og ég hef áhyggjur af því.“

freyr@frettabladid.is






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.