Íslenski boltinn

Umfjöllun: Fylkir fékk flugstart á móti Val

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Úr leik Fylkis og Vals á síðustu leiktíð.
Úr leik Fylkis og Vals á síðustu leiktíð. Mynd/Valli

Ungt lið Fylkis gerði sér lítið fyrir í kvöld og skellti Val, 1-0. Frekar óvænt úrslit enda er Valsmönnum spáð toppbaráttu í sumar og hefur yfir talsvert sterkari hóp að ráða en Fylkismenn.

Það telur aftur á móti ekkert þegar út í leikinn er komið og það sönnuðu Fylkisguttarnir í kvöld. Þeir voru gríðarlega baráttuglaðir, sýndu Valsmönnum enga virðingu og höfðu betur í baráttunni.

Valsmenn voru þokkalegir framan af en leikur þeirra gjörsamlega hrundi eftir mark Kjartans Breiðdal á 22. mínútu. Þeir voru linari í návigjum, ómarkvissir í sóknarleiknum og varnarleikurinn ekki nógu sannfærandi. Ofan á það kom skelfilegur leikur Kjartans Sturlusonar í markinu en hann var arfaslakur svo ekki sé meira sagt.

Miðjumenn Vals - Baldur Bett og Ian Jeffs - afar slappir en Guðmundur Mete skástur þeirra í hlutverki varnarsinnaðs miðjumanns. Á vængjunum voru Baldur Aðalsteinsson og Ólafur Páll Snorrason bitlausir með öllu og létu rúlla sér upp.

Varnarlína Fylkis sterk, bakverðirnir grimmir og miðjan öflug þar sem Valur Fannar stýrði sínum strákum. Framherjarnir síðan afar vinnusamir og sköpuðu á stundum usla með dugnaði sínum.

Valsmenn voru í raun meðvitundarlausir eftir markið allt þar til Helgi Sigurðsson og Marel Baldvinsson komu af bekknum er hálftími lifði leiks. Þá kom smá neisti í Valsliðið en sá neisti varð aldrei að neinu báli.

Þeir sköpuðu þó eitt virkilega gott færi sem þeir voru klaufar að nýta ekki. Fylkismenn unnu því að lokum verðskuldaðan sigur. Þeir voru beittari, grimmari, duglegri og spiluðu mun betur saman sem lið. Það verður spennandi að fylgjast með þessu fríska liði í sumar.

Á Hlíðarenda er aftur á móti verk að vinna og Willum þarf að vinna hratt áður en pressan verður of mikil.

Fylkir-Valur 1-0

1-0 Kjartan Ágúst Breiðdal (22.)

Fylkisvöllur. Áhorfendur: 1.029

Dómari: Eyjólfur Magnús Kristinsson (6)

Skot (á mark): 8-10 (3-1)

Varin skot: Fjalar 1 - Kjartan 2.

Horn: 5-4

Aukaspyrnur fengnar: 14-17

Rangstöður: 4-1

Fylkir (4-4-2):

Fjalar Þorgeirsson 6

Andrés Már Jóhannesson 6

Einar Pétursson 6

(87., Davíð Ásbjörnsson -)

Kristján Valdimarsson 6

Tómas Þorsteinsson 7 - Maður leiksins.

Ásgeir Börkur Ásgeirsson 6

Valur Fannar Gíslason 7

Halldór Hilmisson 3

(82., Felix Hjálmarsson -)

Kjartan Ágúst Breiðdal 7

Pape Mamadou Faye 5

(73., Kjartan Baldvinsson -)

Ingimundur Níels Óskarsson 6

Valur (4-3-3):

Kjartan Sturluson 2

Steinþór Gíslason 5

Reynir Leósson 6

Atli Sveinn Þórarinsson 6

Bjarni Ólafur Eiríksson 6

Guðmundur Viðar Mete 6

(73., Pétur Georg Markan -)

Baldur Bett 3

(59., Helgi Sigurðsson 6)

Ian Jeffs 3

Baldur Ingimar Aðalsteinsson 2

Viktor Unnar Illugason 5

(69., Marel Baldvinsson 4)




Tengdar fréttir

Tómas: Þessir leikmenn eru ekki að elta peninga

Hinn tvítugi Tómas Þorsteinsson, Fylkismaður og sonur sjónvarpsmannsins Þorsteins Joð Vilhjálmssonar, lék sinn fyrsta leik í efstu deild í kvöld. Hann átti virkilega flottan leik og gjörsamlega „snýtti" reynsluboltanum Ólafi Páli Snorrasyni.

Reynir: Áfall að fá á sig mark

„Þetta var baráttuleikur og hvorugt liðið var kannski ekki beint ofan á í þeirra baráttu. Fylkir gaf ekki mörg færi á sér og þeir fá svo ódýrt mark. Það er oft svolítið áfall að fá á sig mark. Það tók okkur tíma að ná okkur eftir það," sagði Reynir Leósson, leikmaður Vals, eftir tapið gegn Fylki í Árbænum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×