Innlent

Halldór hugar að Hafnarfirði

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Halldór Halldórsson er að hætta á Ísafirði. Mynd/ Anton Brink.
Halldór Halldórsson er að hætta á Ísafirði. Mynd/ Anton Brink.
Halldór Halldórsson, bæjarstjóri á Ísarfirði, mun hugsanlega gefa kost á sér til þess að leiða lista sjálfstæðismanna í Hafnarfirði í næstu sveitastjórnarkosningum sem fram fara í vor. Heimildir Vísis herma að Haraldur Ólason sem hefur verið oddviti sjálfstæðismanna í bænum undanfarin misseri hyggist hætta og því þurfi að finna nýjan oddvita á listann fyrir kosningarnar. Halldór sé að þreifa fyrir sér á meðal áhrifamanna í Sjálfstæðisflokknum í bænum.

Helga Ingólfsdóttir, formaður fulltrúaráðs sjálfstæðismanna í Hafnarfirði, segir að ekki sé búið að taka ákvörðun um það með hvaða hætti valið verður á listann, hvort kjörnefnd muni stilla upp lista eða hvort farið verði í prófkjör.

Halldór Halldórsson segir sjálfur í samtali við Vísi að hann sé ekki búinn að taka ákvörðun um það hvert hann stefni eftir að kjörtímabilinu lýkur. Hins vegar hefðu fulltrúar frá þremur sveitarfélögum haft samband við hann vegna framhaldsins. „Það er ekkert nýtt. Það gerðist líka fyrir kosningarnar 2002 þegar ég var búinn að vera fjögur ár á Ísafirði og 2006, þegar ég var búinn að vera í átta ár," segir Halldór.

Taki Halldór ákvörðun um það að gefa kost á sér til að leiða lista sjálfstæðismanna í Hafnarfirði er hins vegar allsendis óvíst að hann fái leiðtogasætið án allrar viðspyrnu. Samkvæmt heimildum Vísis er Rósa Guðbjartsdóttir, sem er núna í öðru sæti á lista sjálfstæðismanna, hvergi á förum úr bæjarstjórninni og lýkur á að einhverjir vilji fá hana í leiðtogasætið.

Ekki náðist í Harald Ólason, oddvita sjálfstæðismanna, vegna málsins.






Tengdar fréttir

Halldór hættir sem bæjarstjóri á Ísafirði

Á fundi í bæjarmálafélagi Sjálfstæðisflokksins í Ísafjarðarbæ í gærkvöldi tilkynnti Halldór Halldórsson bæjarstjóri Ísafjarðarbæjar og oddviti Sjálfstæðismanna í Ísafjarðarbæ um þá ákvörðun sína að gefa ekki kost á sér sem oddviti og bæjarstjóraefni í næstu sveitarstjórnarkosningum vorið 2010.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×