Íslenski boltinn

Farin að geta yfirgefið húsið án orðabókar

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Þórunn Helga Jónsdóttir í búningi Santos í Brasilíu.
Þórunn Helga Jónsdóttir í búningi Santos í Brasilíu. Mynd: Pedro Ernesto Guerra Azevedo

Knattspyrnukonan Þórunn Helga Jónsdóttir er nýu búin að vera út í Brasilíu í tvo mánuði og spilar í nótt fyrsta mótsleik sinn á þessu ári með brasilíska liðinu Santos. Þórunn Helga fór aftur til Brasilíu í janúar eftir að hafa orðið brasilískur bikarmeistari með liðinu fyrir jól.

„Ég fór aftur út í annarri viku janúar eftir að hafa verið á Íslandi yfir hátíðarnar. Það eru því komnir um tveir mánuðir," segir Þórunn Helga sem gekk að hlutunum vísum í þetta skiptið eftir ævintýrið í lok síðasta árs.

„Það var mun auðveldara að koma út í annað skiptið þar sem að ég vissi við hverju ég mátti búast, bæði varðandi fótboltann og lifnaðarhætti. Portúgalskan er líka orðin töluvert betri og ég er farin að geta yfirgefið húsið án orðabókar," segir Þórunn.

Hásumar og mikill hiti

Þórunn Helga kann mjög vel við sig út í Brasilíu þrátt fyrir hitann og hún er sannfærð um að ná að bæta sig mikið út í Brasilíu.

„Ég er mjög sátt við að hafa komið aftur út. Hérna get ég einbeitt mér 100% að því að spila fótbolta og bæta mig. Við æfum tvisvar á dag alla virka daga og höfum verið að spila æfingaleiki um helgar. Svo erum við með það stóran hóp að við náum að skipta í þrjú 11 manna lið á æfingum," segir Þórunn og bætir við.

„Hér er reyndar hásumar, svo að hitinn er töluvert meiri en maður á að venjast og enn meiri en þegar ég var hér fyrir áramót."

Ætlar sér að spila með KR í sumar

Þórunn ætlar sér samt að koma heim og spila með KR í sumar. „Ég stefni að því að vera hér fram í miðjan apríl svo að ég á ekki mikinn tíma eftir. Ég ætla bara að einbeita mér að því að æfa og spila eins vel og ég get hérna fram að því og halda áfram að njóta dvalarinnar og fótboltans," segir Þórunn og útskýrir aðeins betur.

„Ég er bundin af því að koma heim í apríl, því að ég fór út með svo skömmum fyrirvara að ég náði ekki að sækja um vegabréfsáritun. Ég er líka búin að vera í sambandi við Gareth þjálfara KR allan tímann sem ég hef verið hérna og veit ekki betur en að hann geri ráð fyrir mér í KR liðinu í sumar.

Þetta kemur allt í ljós. Aðalmálið hjá mér er að æfa og spila með Santos meðan tækifærið gefst," segir Þórunn Helga.

Santos er sigurstranglegasta liðið

Framundan er keppni í sem er fylkismót og þar sem bara lið frá Sao Paolo fylki sem spila. Mótið er samt á vegum knattspyrnusambands Brasilíu en ekki héraðssambands Sao Paolo.

„Mér skilst að liðið sé talið sigurstranglegast í þessari keppni. Hópurinn er mjög breiður og sterkur og mjög stór hluti liðsins á að baki landsleiki fyrir Brasilíu, annað hvort í a-landsliðinu eða yngri landsliðum. Reyndar missum við tvær sterkar til Bandaríkjanna fljótlega, Fran og Ériku," segir Þórunn Helga.

Meðal liðsmanna Santos eru fjórar landsliðskonur Brasilíu sem unnu meðal annars silfurverðlaun á Ólympíuleikunum í Peking. Þórunn býst við að Santos-liðið eigi jafnvel sex leikmenn í landsliðinu sem mætir Svíum í vináttulandsleik í næsta mánuði.

Everybody to you, everybody to you

Þórunn hefur gaman af lífinu í Brasilíu og átti skemmtilega sögu af stelpunum í liðinu.

„Þó að stelpurnar tali litla sem enga ensku hafa þær mjög gaman að amerískri og breskri tónlist. Þær eru hins vegar ófeimnar við að syngja með þó að þær skilji ekkert og oftar en ekki nota þær frumsamin orð.

Ein taldi sig þó vera með afmælissönginn alveg á hreinu: „Everybody to you, everybody to you, everboooody to you". Útaf fyrir sig ekkert svo galinn texti," segir Þórunn Helga að lokum í léttum tón.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×