Innlent

Slæm færð við Húsavík - óvissustig á Vestfjörðum

Lögreglan á Húsavík vill koma þeim skilaboðum til vegfarenda að veður og færð eru tekin að spillast víða í umdæminu. Í Köldukinn eru akstursskilyrði slæm sem og í Ljósavatnsskarði vegna snjókófs. Þá hafa ökumenn einnig lent í vandræðum vegna þessa á Tjörnesi.

Fyrir stundu varð árekstur með tveimur bifreiðum við Ljósavatn. Ekki urðu slys á fólki en báðar bifreiðarnar voru óökufærar á eftir. Björgunarsveit var kölluð út til að aðvara aðra vegfarendur en skyggnið á vettvangi er mjög slæmt vegna ofankomu og hvassviðris.

Þá hefur Veðurstofa Íslands, í samráði við lögreglustjórann á Vestfjörðum, hefur lýst yfir óvissustigi á norðanverðum Vestfjörðum. Ákvörðunin er tekin vegna þeirra veðurskilyrða sem hafa verið undanfarin sólahring og veðurútlits næstu tímanna. Fylgst verður náið með ástandinu en ekki er talin þörf á frekari aðgerðum að svo stöddu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×