Innlent

Allir búnir að skila nema Ólafur

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Borgarstjórn Reykjavíkur. Mynd/ Vilhelm.
Borgarstjórn Reykjavíkur. Mynd/ Vilhelm.

Allir borgarfulltrúar nema Ólafur F. Magnússon, fulltrúi F listans, hafa skilað inn upplýsingum um fjárhaglsega hagsmuni sína, samkvæmt yfirliti sem birt er á vef Reykjavíkurborgar.

Fyrir hádegið í dag höfðu sjö borgarfulltrúar skilað inn, en það voru Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson, Júlíus Vífill Ingvarsson og Gísli Marteinn Baldursson úr Sjálfstæðisflokki, Dagur B. Eggertsson, Björk Vilhelmsdóttir og Oddný Sturludóttir Samfylkingu og Sóley Tómasdóttir Vinstri grænum. Hinir sjö borgarfulltrúarnir bættust svo við síðar í dag.

Fram kemur á vef Reykjavíkurborgar að borgarráð samþykkti á fundi sínum 29. október 2009 reglur um skráningu á fjárhagslegum hagsmunum borgarfulltrúa og trúnaðarstörfum utan borgarstjórnar. Vísað sé til þeirra í nýsamþykktum siðareglum kjörinna fulltrúa hjá Reykjavíkurborg.

Ólafur F. Magnússon hefur sakað Hönnu Birnu um pólitíska spillingu og krafist afsagnar hennar því hún hefði með mikilli leynd tekið við styrkjum frá Landsbankanum og þess vegna verið vanhæf í málefnum Listaháskóla Íslands sem eigendur Landsbankans hugðust reisa hús yfir við Laugaveg.

Í svari Hönnu Birnu Kristjánsdóttur til fréttastofu í dag segir hún þetta fráleitt. Ákvörðun um staðsetningu skólans við Laugaveg hafi verið tekin í borgarstjóratíð Dags. B. Eggertssonar, en þá hafi Ólafur verið forseti borgarstjórnar. Landsbankinn hafi vissulega styrkt hana líkt og marga aðra frambjóðendur í flestum stjórnmálaflokkum fyrir síðustu kosningar. Hún hafi hvergi komið nærri fjáröflun og enginn styrkur verið hærri en hálf milljón.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×