Enski boltinn

Modric þorði ekki að taka víti í úrslitaleiknum

Nordic Photos/Getty Images

Króatíski landsliðsmaðurinn Luka Modric hjá Tottenham viðurkennir að hann hafi beðist undan því að taka eina af spyrnum liðsins í vítakeppni úrslitaleiksins í deildabikarnum um helgina.

Manchester United stóð uppi sem sigurvegari eftir vítakeppnina en þar virkuðu leikmenn Tottenham ekki sérlega öruggir. Jamie O´Hara lét verja frá sér fyrstu spyrnu Tottenham og David Bentley brenndi af.

Í samtali við Sportske Novosti sagði Modric að hann væri á móti því að taka vítaspyrnur eftir að hann missti marks á EM landsliða í sumar.

"Ég þarf að komast yfir þennan ótta. Ég vil ekki að það sé varanlegt vandamál fyrir mig að óttast að taka vítaspyrnur," sagði Modric.

Í þessu sama viðtali sagðist Króatinn ekki þola leikræna tilburði Cristiano Ronaldo hjá Manchester United.

"Ronaldo er frábær leikmaður og ég hef ekkert á móti honum, en vælið í honum og leikaraskapur hans hefur neikvæð áhrif. Ég skil ekki af hverju hann hættir þessu ekki," sagði Modric.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×