Enski boltinn

Downing stefnir á að spila aftur í nóvember

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Stewart Downing í leik með Middlesbrough.
Stewart Downing í leik með Middlesbrough. Nordic Photos / Getty Images

Stewart Downing, leikmaður Aston Villa, stefnir að því geta spilað með liðinu í nóvember næstkomandi.

Downing gekk til liðs við Villa frá Middlesbrough í sumar eftir að síðarnefnda félagið féll úr úrvalsdeildinni í vor.

Hann meiddist hins vegar á meðan hann var enn leikmaður Boro og hefur því ekki enn spilað með félaginu. Hann er þó á batavegi nú.

„Sérfræðingurinn er ánægður með batann hans og eru það afar góðar fréttir," sagði Martin O'Neill, stjóri Aston Villa. „Sjálfur myndi hann örugglega vilja spila strax á morgun en ég held að læknirinn okkar myndi vilja sýna aðeins meiri aðgát."

Downing mun sjálfsagt gera sitt besta til að tryggja sér sæti í HM-hópi enska landsliðsins fyrir úrslitakeppnina í Suður-Afríku næstkomandi sumar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×