Innlent

„Við erum rosalega bjartsýn og vongóð“

Nóg að gera Kaupglaðir Íslendingar lögðu leið sína í nýja verslun Habitat um helgina.
fréttablaðið/Pjetur
Nóg að gera Kaupglaðir Íslendingar lögðu leið sína í nýja verslun Habitat um helgina. fréttablaðið/Pjetur

„Þetta er örugglega létt geggjun. En við erum rosalega bjartsýn og vongóð,“ segir Telma Birgisdóttir, einn eigenda Tekk ehf., sem hefur tekið við rekstri Habitat.

Habitat opnaði fyrst á Íslandi árið 1983, en verslunarkeðjan er frá Bretlandi. Versluninni var lokað í febrúar í fyrra, en Telma og félagar opnuðu á ný á laugardag í Holtagörðum. „Verslunin fór rosalega vel af stað. Það er greinilega mikið til af Habitat-unnendum,“ segir Telma. „Það var brjálað að gera alla helgina.“

Óhagstætt gengi krónunnar hrakti hamborgaratrúðinn Ronald McDonald og félaga úr landi í síðustu viku, en Telma segir að rekstur með innfluttum vörum sé mögulegur. „Þetta er hægt með bjartsýni og smá hjálp,“ segir hún, en stjórnendur Habitat hjálpuðu til við að koma keðjunni aftur til Íslands. Verslunin var á sínum tíma sú fyrsta sem var opnuð utan Bretlands.

Annríkasti tími ársins í verslun er að fara í hönd og Telma játar að verslunin sé opnuð á besta tíma. „Fólk var mikið að kaupa smávöru og jólagjafir um helgina,“ segir hún. „Það kom okkur líka á óvart að það var mikil eftirspurn eftir húsgögnunum.“

- afb




Fleiri fréttir

Sjá meira


×