Innlent

Hefur mætt á 50% funda í Skipulagsráði

Breki Logason skrifar
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson. MYND/VALLI

Framsóknarmaðurinn Sigmundur Davíð Gunnlaugsson hefur mætt á 18 af þeim 36 fundum sem hann hefur átt að sitja í Skipulagsráði Reykjavíkurborgar. Alls hafa verið haldnir 43 fundir síðan Sigmundur var kosinn í ráðið þann 21.ágúst 2008 en hann var í leyfi á 7 af þeim fundum. Fulltrúar Vinstri grænna og Samfylkingarinnar í ráðinu kölluðu eftir yfirliti um fundarsetu Sigmundar á síðasta fundi.

Þá var einnig kallað eftir upplýsingum um launakjör Sigmundar fyrir umræddan tíma og kostnað við að kalla inn varamenn. Vísir fór yfir fundargerðir Skipulagsráðs á þessu tímabili og var þetta niðurstaðan. Sigmundur mætti einnig fimm sinnum of seint á fundi.

Á fyrsta fundi sínum þann 27.ágúst 2008 var Sigmundur kosinn varaformaður ráðsins en sú tillaga var samþykkt einróma. Hann mætti ágætlega til að byrja með en strax eftir áramótin fór fjarvera hans sífellt að aukast. Hann mætti á fund þann 17.desember en síðan sást hann ekkert fyrr en í lok júní á þessu ári.

Þann 11.mars var reyndar lagt fram bréf borgarstjóra frá 4.mars þar sem Sigmundur óskaði eftir leyfi frá nefndarsetu í ráðinu frá og með 3.mars og út apríl. Tillagan var samþykkt einróma og Brynjar Fransson var kjörinn varaformaður skipulagsráðs í stað Sigmundar.

Eftir að Sigmundur lét sjá sig í júní hefur hann mætt þokkalega, þó hann hafi verið fjarverandi á síðustu tveimur fundum Skipulagsráðs. Líkt og flestir vita er Sigmundur einnig formaður Framsóknarflokksins, auk þess sem hann situr á Alþingi fyrir flokkinn.

Ekki náðist í Sigmund Davíð við vinnslu fréttarinnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×