Íslenski boltinn

Kostic: Sagði strákunum að vera þolinmóðir

Ómar Þorgeirsson skrifar
Luca Kostic.
Luca Kostic. Mynd/Vilhelm

Þjálfarinn Luca Kostic hjá Grindavík var eðlilega kátur í leikslok eftir 4-2 sigurinn gegn Stjörnunni á Grindavíkurvelli í kvöld.

„Mér fannst við vera spila vel stærstan hluta af leiknum, ekki bara í seinni hálfleiknum. Mér finnst við reyndar búnir að vera að spila vel í síðustu fimm leikjum og vorum samt ekki að fá mikið úr þeim leikjum.

Ég sagði strákunum bara að þeir þyrftu að vera þolimóðir því leikurinn er níutíu mínútur og það skilaði sér í kvöld. Við gáfumst ekki upp og þetta var sætur sigur," segir Kostic.

Kostic var ekki bara ánægður með stigin þrjú heldur líka spilamennskuna hjá sínum mönnum.

„Við höfum stundum dottið í það í sumar að vera að spila langar sendingar endalaust og það er alls ekki okkar styrkur. Við sýndum í kvöld hversu hættulegir við getum verið þegar við höldum boltanum niðri og spiluð hratt fram völlinn. Vonandi höldum við þessu áfram og spilum sem lið og ég er viss um að leikmennirnir taka mikið sjálfstraust út úr sigrinum í kvöld," segir Kostic.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×