Enski boltinn

Klinsmann hraunar yfir Benitez

Henry Birgir Gunnarsson skrifar

Þjóðverjinn Jurgen Klinsmann dregur ekkert undan í gagnrýni sinni á Rafa Benitez, stjóra Liverpool, í viðtali við The Sun í dag.

Klinsmann segir að það sem Liverpool vanti meðal annars sé hraði, hugmyndaauðgi og sendingageta, annan heimsklassa framherja, stöðugleiki og einfaldlega gæði.

Þjóðverjinn segir að það sé líka ósanngjarnt af Benitez að setja alla pressuna á stjörnuleikmenn liðsins - Gerrard og Torres.

„Það sem vantar hjá Liverpool er hraðinn og sendingagetan. Liðið hefur tvo leikmenn sem uppfylla þessar kröfur en þeir geta ekki verið alls staðar á vellinum. Það er ekkert alvöru flæði í leik liðsins og mikill skortur á hugmyndaauðgi. Ef leikur liðsins veltur alfarið á Gerrard og Torres þá er liðið ekki í góðum málum," sagði Þjóðverjinn ákveðinn.

„Það er ekki hægt að setja alla byrðina á axlir tveggja manna. Þess vegna vantar liðið fleiri gæðaleikmenn. Öðruvísi endar það ekki í topp fjórum í vetur. Það vantar einhvern alvöru leikmann sem býr hluti til. Alvöru mann númer 10 og annan heimsklassaframherja með Torres."

Klinsmann hefur verið orðaður við stjórastarfið hjá Liverpool en hann átti fund með eigendum félagsins fyrir ári síðan. Hann segist ætla að fara aftur í þjálfun næsta sumar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×