Enski boltinn

Evans vonast til að sleppa við uppskurð

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Jonny Evans í leik með norður-írska landsliðinu.
Jonny Evans í leik með norður-írska landsliðinu. Nordic Photos / Getty Images

Jonny Evans, leikmaður Manchester United, vonast til að hann þurfi ekki að fara í uppskurð vegna ökklameiðsla sinna.

Hann hefur átt í vandræðum með meiðslin undanfarið ár og sagði í síðasta mánuði að hann þyrfti líklegast að fara í uppskurð til að ná sér góðum.

Hann hefði þó verið tilbúinn að spila með norður-írska landsliðinu í undankeppni HM 2010 nú í september.

„Fyrir nokkrum vikum fannst mér að ég þyrfti að fara í aðgerð en mér líður miklu betur nú í kjölfar þess að ég gekkst undir sprautumeðferð."

Norður-Írar eru í góðri stöðu í 3. riðli undankeppninnar. Liðið er með þrettán stig eftir sjö leiki í öðru sæti riðilsins og tveimur stigum á eftir Slóvakíu sem á leik til góða.

„Við verðum að stefna á efsta sæti riðilsins. Umspilið er mikið happadrætti og fyrst við eigum möguleika á að ná efsta sætinu ættum við hiklaust að stefna á það."

Norður-Írland mætir Slóvakíu og Póllandi nú á næstu dögum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×