Innlent

Ástand raflagna reglulega yfirfarið í leikskólum

Viðhald raflagna í fasteignum er mikilvægt og hjá Reykjavíkurborg eru þessi mál í ákveðnum farvegi, að fram kemur í tilkynningu frá framkvæmda- og eignasviði Reykjavíkurborgar.

Vegna frétta af skýrslu Brunamálastofnunar um ástand raflagna í leikskólum vill framkvæmda- og eignasvið árétta að í öllu húsnæði borgarinnar er vel haldið utan um viðhald raflagna. Þetta gildir að einnig um leikskólana.

Brunamálastofnun hefur síðastliðin ár látið skoða raflagnir á leikskólum víðsvegar um landið. Tilgangurinn var að fá sem gleggsta mynd af ástandi raflagna og rafbúnaðar á leikskólum.

Úttekt Brunamálastofnunar leiddi í ljós að þessum málum er víða ábótavant á leikskólum. Þannig voru gerðar athugasemdir við merkingu búnaðar í rafmagnstöflu í 58% tilvika, við tengla í 41% tilvika og við töfluskápa í 38% tilvika.

Í tilkynningu framkvæmda- og eignasviðs borgarinnar segir að þjónustusamningar um reglubundið viðhald hafa verið gerðir síðan 2001 og því sinni löggiltir rafverktakar.

„Verktakar eiga að lagfæra strax allar athugasemdir, sem eru taldar alvarlegar og geta skapað hættu. Sem dæmi má taka að ef tengill er brotinn er skipt um hann strax. Verktakar hafa skilað inn skriflegum skýrslum árlega til eftirlitsmanns verkkaupa sem metur og forgangsraðar í samráði við fasteignastjóra hvað skal lagfært þetta árið. Aðrar athugasemdir sem ekki eru aðkallandi eru settar á óskalista vinnuáætlunar næsta árs," segir í tilkynningunni.




Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×