Íslenski boltinn

Kristján: Þetta er hundsvekkjandi

Smári Jökull Jónsson skrifar
Kristján Hauksson mætir sínum gömlu félögum í Val.
Kristján Hauksson mætir sínum gömlu félögum í Val. Mynd/Valli

Framarinn Kristján Hauksson kom frá Val rétt áður en Pepsi-deildin hófst. Hann var auðvitað ósáttur eftir tap gegn sínum gömlu félögum.

"Þetta er hundsvekkjandi. Mér fannst þetta ekki sanngjarnt. Við vorum í erfiðleikum fyrstu mínúturnar en eftir að þeir skoruðu þá áttu þeir ekki möguleika. Þó þeir hafi jafnað rétt fyrir hálfleik þá áttum við samt sem áður að koma okkur inn í þetta aftur. Við komum eitthvað skrýtnir út í seinni hálfleikinn og fáum á okkur mark snemma," sagði Kristján í samtali við Vísi.

Framarar hafa verið þekktir fyrir öflugan varnarleik undir stjórn Þorvaldar Örlygssonar en mörkin hafa látið standa á sér og hafa þeir aðeins skorað fjögur mörk í fyrstu fimm leikjum sumarsins. "Þetta er ekkert vandamál held ég en þetta hefur ekki verið að detta hjá okkur í öllum leikjunum, en ég held það muni gera það í næstu leikjum og við verðum bara að hafa trúa á þessu. Þá mun þetta koma.

Kristján átti í mikilli baráttu við Marel Jóhann Baldvinsson í kvöld sem stríddi honum verulega í vörninni. Litlu munaði að uppúr syði undir lokin og Kristján var ekki alveg nógu ánægður með þátt Marels. "Mér fannst aukaspyrnurnar detta svolítið þeirra megin og Marel liggja ansi oft í grasinu, hann átti það til að detta ansi auðveldlega. Við erum engir vinir inni á vellinum en félagar utan vallar. Það nær ekkert lengra en það," sagði Kristján að lokum í samtali við Vísi.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×