Innlent

Framfærsla námsmanna hækkar um 20 prósent

Katrín Jakobsdóttir, menntamálaráðherra.
Katrín Jakobsdóttir, menntamálaráðherra. Mynd/Arnþór Birkisson

Grunnframfærsla Lánasjóðs íslenskra námsmanna hækkar um 20% og hækkar hún í 120 þúsund krónur á mánuði. Ríkisstjórnin hefur samþykkt að veita lánasjóðnum einn milljarð króna á fjárlögum ársins 2010 til þess að hækka framfærslugrunn sjóðsins.

Ýmsar breytingar verða jafnframt gerðar á samspili námslána og atvinnuleysisbóta og er markmiðið að hvetja fólk til náms sem annars væri á atvinnuleysisbótum. Katrín Jakobsdóttir, menntamálaráðherra, og Árni Páll Árnason, félagsmálaráðherra, kynntu breytingarnar á blaðamannafund í dag.

Katrín Jakobsdóttir menntamálaráðherra segir breytingarnar mikilvægt skref að því markmiði að reyna að beina fólki í nám ekki síst að auðvelda atvinnulausum að feta menntaveginn.

Árni Páll tekur í svipaðan streng og bendir á að með því að draga úr muninum á milli bóta og grunnframfærslu er ekki eins freistandi að vera á bótum. „Markmiðið er að tengja betur saman þessi kerfi og auðvelda fólki að bæta við sig í menntun á þessum erfiðu tímum. Þannig stöndum við eftir sem kröftugri þjóð og betur í stakk búin til þess að takast á við framtíðina," segir Árni Páll.

15 þúsund króna munur á bótum og lánum

Áætlað er að framfærslugrunnur Lánasjóðs íslenskra námsmanna verði um 120 þúsund krónur á mánuði í stað um 100 þúsund króna nú. Atvinnuleysisbætur að frádregnum skatti eru nú um 135.000 krónur á mánuði.

Reiknað er með að fyrirhugaðar breytingar leiði til þess að strax á haustmisseri skólanna sem nú er að hefjast muni um 500 einstaklingar fara af atvinnuleysisbótum í nám og að þeir verði á bilinu 700 til 900 á vormisseri. Slíkt myndi draga úr útgjöldum Atvinnuleysistryggingasjóðs sem nemur um 700 til 900 milljónum króna á ársgrundvelli.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×