Enski boltinn

Giggs gæti hætt í sumar

Ryan Giggs
Ryan Giggs AFP
Kantmaðurinn knái Ryan Giggs hjá Manchester United segir ekki útilokað að hann leggi skóna á hilluna í sumar.

Samningur Walesverjans rennur út í maí en honum hefur enn sem komið er ekki verið boðinn nýr samningur.

"Ég held áfram að spila svo lengi sem ég nýt þess, á meðan ég er heill og á meðan stjórinn getur enn notað mig. Ef eitthvað af þessum þremur atriðum dettur út, mun ég hugsa um að hætta. Það gæti verið í lok þessarar leiktíðar eða næstu. Samningurinn rennur út í maí, svo ég verð að sjá til þá," sagði Giggs, sem hefur unnið tvo Evrópubikara með United.

Hann viðurkennir að aldurinn sé farinn að segja til sín, en segist ekki finna lengur fyrir pressunni sem fylgir því að spila fyrir Englandsmeistarana.

"Ég er í eins góðu formi og ég hef verið í á ferlinum, en það eina sem hefur breyst er það hvað ég er mikið lengur að ná mér eftir leiki en áður. Í dag er ég enn þreyttur tveimur dögum eftir að ég spila en áður fyrr spilaði maður þrjá leiki á viku og hafði ekkert fyrir því. Nú spila ég bara einu sinni í viku og það hentar mér mjög vel," sagði Giggs sem hefur verið hjá United í 18 ár.

"Ég man þegar ég kom fyrst inn í liðið, þá fann ég aldrei fyrir spennu. Svo um tvítugt fór maður að finna fyrir pressu þegar maður lék illa eða meiddist. Síðan ég varð þrítugur hef ég hinsvegar aldrei fundið fyrir pressu," sagði Giggs.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×