Innlent

Varist ginningar stóriðjunnar

Segir stóriðju vel þola hóflegan auðlindaskatt og sjávarútvegur þola hóflega innköllun veiðiheimilda.fréttablaðið/gva
Segir stóriðju vel þola hóflegan auðlindaskatt og sjávarútvegur þola hóflega innköllun veiðiheimilda.fréttablaðið/gva

 Árni Páll Árnason félagsmálaráðherra segir að ef sjávarútvegur og stóriðja geti ekki þolað hóflega innköllun veiðiheimilda og hóflega auðlindaskatta sé spurning hvort yfir höfuð hafi verið veðjað á réttan hest og ekki þurfi að leita annarra kosta um framtíðaratvinnuuppbyggingu. Þetta sagði hann í ræðu sinni á ársþingi ASÍ í gær.

Árni Páll sagði grátkór og kveinstafi útgerðar og álfyrirtækja verða háværari og ágengari á sama tíma og launafólk stillti kröfum sínum í hóf og sýndi þolgæði. Sjávarútvegurinn hefði notið ríkulegra ávaxta af stórfelldri gengisfellingu.

„Afkomubati sjávarútvegsins á síðasta ári hleypur á tugum milljarða. Þessi afkomubati er fenginn með fórnum ykkar og ykkar félagsmanna,“ sagði ráðherrann við fulltrúa Alþýðusambandsins.

Þá sagði hann að ákvörðun umhverfisráðherra varðandi Suðvesturlínu myndi ekki tefja uppbyggingu í Helguvík að neinu marki umfram þær tafir sem sköpuðust af skorti á fjármagni framkvæmdaaðila, vöntun á lánstrausti orkufyrirtækja og þeirri staðreynd að vafi léki á að fullnægjandi orkukostir væru til reiðu.

„Við eigum að standa með okkur sjálfum, setja viðskiptalífinu skýr mörk og verða ekki ginningarfífl stóriðju og útgerðarauðvalds með sama hætti og við eltum sérhagsmuni bankadrengjanna og útrásargosanna á undanförnum árum.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×