Innlent

Evrópulánið tryggir orku í fyrsta áfanga Helguvíkur

Ákvörðun Evrópska fjárfestingabankans, að gefa grænt ljós á þrjátíu milljarða króna lán til Orkuveitu Reykjavíkur, þýðir að Orkuveitan getur tryggt nægilegt rafmagn til fyrsta áfanga álvers Norðuráls í Helguvík. Stjórnarformaður Orkuveitunnar segir lánskjörin ásættanleg.

Lánið frá Evrópska fjárfestingarbankanum var fryst fyrir ári þegar íslenska fjármálakerfið hrundi. Fyrir helgi fékk Orkuveitan loks lánssamninginn í hendur en sérfræðingar hennar eru nú að fara yfir nokkur ný skilyrði sem hafa verið sett, að sögn Guðlaugs Sverrissonar stjórnarformanns. Meðal þeirra eru að álag hækkar ofan á libor-vexti og lánstími breytist. Spurður hvort í þessu felist umtalsverður kostnaður segir Guðlaugur alls ekki svo vera.

Lánið verður nota til að greiða upp skammtímalán en einnig til að fjármagna fimmta áfanga Hellisheiðarvirkjunar, en orka hennar er eyrnamerkt Norðuráli. Þá segir Guðlaugur að afgreiðsla Evrópska fjárfestingarbankans greiði leiðina fyrir láni frá Þróunarbanka Evrópu til Hverahlíðarvirkjunar, sem hugsuð er í annan áfanga Helguvíkurálvers.

Lánveitingin þýðir, að sögn Guðlaugs, að Orkuveitan verður á réttum tíma, miðað áætlanir Norðuráls og stjórnvalda, með raforku fyrir fyrsta áfanga álversins. Orkuveitan sé þannig tilbúin með sín verkefni.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×