Innlent

Engar upplýsingar um sparnað vegna opins hugbúnaðar

Kostir og gallar opins hugbúnaðar ræddir í þaula. Þar kom fram að mikil fjárútlát megi spara með innleiðingu á nýjum stýrikerfum og ókeypis hugbúnaði.Fréttablaðið/gva
Kostir og gallar opins hugbúnaðar ræddir í þaula. Þar kom fram að mikil fjárútlát megi spara með innleiðingu á nýjum stýrikerfum og ókeypis hugbúnaði.Fréttablaðið/gva

Ríkið hefur ekki heildarupplýsingar um kostnað stofnana hins opinbera vegna leigu á leyfum á séreignahugbúnaði. Ekki liggja því fyrir upplýsingar um hugsanlegan sparnað ríkisins af innleiðingu opins hugbúnaðar.

Þetta kom fram í máli Höllu Bjargar Baldursdóttur, verkefnastjóra í rafrænni stjórnsýslu hjá forsætisráðuneytinu, á hádegisfundi Skýrslutæknifélags Íslands í vikunni.

Nokkrar stofnanir hafa aukið vægi og notkun opins hugbúnaðar en menntamálaráðuneytið hvatti til þess í ágúst að menntastofnanir tækju upp notkun á opnum og frjálsum hugbúnaði í meira mæli en áður. Dæmi eru um að framhaldsskóli greiði erlendum hugbúnaðarfyrirtækjum 1,5 milljónir króna í leyfisgjöld á ári fyrir notkun á séreignahugbúnaði.

Á fundinum benti Sigurður Ólafsson, skipulagsstjóri Þjóðleikhússins, á að við breytingu á tölvukerfi leikhússins í vor hafi verið leitað tilboða bæði frá fyrirtækjum sem bjóða séreignahugbúnað, svo sem frá Microsoft, og frjálsum búnaði.

Niðurstaðan hafi verið opna hugbúnaðinum í vil og var í kjölfarið Ubuntu-stýrikerfið innleitt hjá Þjóðleikhúsinu. Stýrikerfið er ókeypis og fylgir með því skrifstofuvöndull og póstforrit ásamt öðru sem ekki þarf að greiða fyrir. Þrátt fyrir þjónustusamning við innlenda kerfisþjónustu er kostnaðurinn 75 prósentum lægri fyrsta árið en ef hin leiðin hefði verið farin.

Fram kom í máli Halldórs Jörgenssonar, framkvæmdastjóra Microsoft á Íslandi, að sparnaður vegna innleiðingar á opnum og ókeypis hugbúnaði kunni að vera ofmetinn. Þótt kostnaðurinn kunni að vera lágur í upphafi verði hann sambærilegur að þremur árum liðnum og ef séreignahugbúnaður væri keyptur.jonab@frettabladid.is








Fleiri fréttir

Sjá meira


×