Þau hræðilegu tíðindi að markvörðurinn Robert Enke hafi framið sjálfsmorð hafa nú verið staðfest í þýskum fjölmiðlum.
Jörg Neblung, ráðgjafi Enke, staðfesti tíðindin válegu í kvöld.
„Þetta var sjálfsvíg. Ég vil samt ekki tjá mig frekar um hvað lá þar að baki. Ég bið um að því verði sýndur skilningur," sagði Neblung í viðtali við þýsku fréttaveituna dpa.
Joachim Löw landsliðsþjálfari Þýskalands og Oliver Bierhoff greindu leikmönnum þýska landsliðsins frá fréttunum í kvöld og Bierhoff sagði: „Við erum allir í sjokki og erum orðlausir."
Theo Zwanziger, forseti þýska knattspyrnusambandsins tjáði sig einnig um dauða Enke í þýskum fjölmiðlum í kvöld: „Þetta er mikið áfall fyrir okkur. Hugur okkar er með eiginkonu Robert Enke og fjölskyldu hans," sagði Nwanziger.