Innlent

Telur siðareglurnar bíræfnar

Ólafur sakar kollega sína í borgarstjórn um hræsni.Fréttablaðið/gva
Ólafur sakar kollega sína í borgarstjórn um hræsni.Fréttablaðið/gva

Ólafur F. Magnússon greiddi atkvæði gegn nýjum siðareglur borgarfulltrúa á borgarstjórnarfundi á þriðjudag. Hann lét bóka að tregða borgarfulltrúa við að upplýsa um prófkjörsstyrki, auk annars, gerði slíkar siðareglur marklausar.

„Undirritun borgarfulltrúa á siðareglum fyrir kjörna fulltrúa er ekki pappírsins virði í ljósi þeirrar staðreyndar að fimm af sjö borgarfulltrúum Sjálfstæðisflokks, sem undirrituðu málefnasamning árið 2008 um meirihlutamyndun með F-listanum, meintu ekki eitt einasta orð af því sem þeir undirrituðu," bókar Ólafur.

„Miðað við það upplausnar­ástand, blandað mannorðsveiðum, sem ríkt hefur á þessu kjörtímabili og hefur ekki síst verið kynt undir af borgarfulltrúum Sjálfstæðisflokksins, að undanskildum Vilhjálmi Þ. Vilhjálmssyni og Kjartani Magnússyni, verður það að teljast bíræfni af hálfu borgarfulltrúa að ætla að setja fögur orð á blað og kalla það siðareglur."

Í ljósi þessa, og áðurnefndrar tregðu borgarfulltrúa við að gefa upp prófkjörsstyrki, segist Ólafur ekki hafa geð í sér til að greiða atkvæði með siðareglunum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×