Enski boltinn

United setti met í stórsigri á WBA

Elvar Geir Magnússon skrifar
United hefur ekki fengið á sig mark í 1.030 mínútur í deildinni.
United hefur ekki fengið á sig mark í 1.030 mínútur í deildinni.

Manchester United náði þriggja stiga forystu í ensku úrvalsdeildinni í kvöld þegar liðið vann 5-0 útisigur á West Brom. Liðið hélt marki sínu hreinu ellefta deildarleikinn í röð og setti met.

United hefur ekki fengið á sig mark í deildinni síðan 8. nóvember þegar Samir Nasri skoraði fyrir Arsenal. Nemanja Vidic, sem hefur átt hvað stærstan þátt í þessu meti, skoraði eitt marka United í kvöld.

Dimitar Berbatov braut ísinn í kvöld en hann hefur verið sjóðheitur að undanförnu. Hann átti gott samspil við Michael Carrick og setti svo boltann snyrtilega í hornið. Leikmenn West Brom lentu svo manni færri þegar Paul Robinson fékk rautt fyrir tæklingu á Ji-Sung Park.

Carlos Tevez bætti við marki fyrir hálfleik eftir mistök markvarðarins Scott Carson. Vidic skoraði þriðja markið eftir hornspyrnu og Cristiano Ronaldo bætti síðan við tveimur mörkum áður en flautað var til leiksloka.

Rio Ferdinand var í byrjunarliði Manchester United en hann fór af velli fyrir Wes Brown í seinni hálfleik. Þá kom Zoran Tosic einnig inn sem varamaður í sínum fyrsta úrvalsdeildarleik fyrir United.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×