Erlent

Ný vefsíða býr fólk undir atvinnuviðtöl

Atli Steinn Guðmundsson skrifar

Hvað myndirðu gera við 100 jólatré í júlí, hvenær máttu skrökva og ef þú værir morgunkorn, hvaða tegund af því værirðu? Varla eiga margir von á því að þurfa að finna svör við ráðgátum á borð við þessar í atvinnuviðtölum en aðstandendur vefsíðunnar glassdoor.com telja það hins vegar ákaflega líklegt.

Svo segir að minnsta kosti Robert Hohman sem stýrir síðunni. Hohman og starfsfólk hans hafa ekki setið auðum höndum heldur sankað að sér upplýsingum og spurningalistum úr atvinnuviðtölum hjá rúmlega þúsund fyrirtækjum um gervöll Bandaríkin. Ætlunin er að búa hinn almenna atvinnuleitanda undir viðtal og draga úr kvíða, spennu og almennum hryllingi áður en sest er niður með hugsanlegum framtíðarvinnuveitanda og farið yfir stöðuna.

Auk þess býðst fólki að segja frá sínu atvinnuviðtali á síðunni og fá í staðinn aðgang að sögum annarra. Þannig varar maður nokkur í Tucson í Arizona fólk eindregið við því að sækja um starf húsvarðar á elliheimili þar í bænum. Ekki sé nóg með að umsókn hans um starfið hafi týnst heldur tók sá, sem átti að taka viðtalið við hann, sér frí í vinnunni þann daginn. Einhverjir myndu kannski skoða þetta sem góðlátlega ábendingu en hvað sem því líður flykkjast netverjar á glassdoor.com til að búa sig undir viðtalið örlagaríka.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×