Skagamaðurinn Teitur Þórðarson stýrði Vancouver Whitecaps til 1-0 sigurs gegn Carlolina RailHawks í fyrsta leik liðanna í fyrstu umferð úrslitakeppni Norður-amerísku USL-1 deildarinnar í nótt.
Varamaðurinn Randy Edwini-Bonsu skoraði sigurmark leiksins fyrir Whitecaps á 72. mínútu eftir góðan undirbúning frá Marlon James.
Whitecaps endaði í sjöunda sæti í deildinni en RailHawks í öðru sæti en liðið sem er fyrst til þess að vinna tvo leiki í rimmunni fer áfram í aðra umferð. Næsti leikur liðanna er á aðfararnótt mánudags.
„Nú er þeir komnir í þá stöðu að þeir þurfa að sækja á okkur og það gæti hentað okkur vel. Sérstaklega ef við spilum jafn góðan varnarleik og við gerðum í þessum leik. Þá er ég sannfærður um að við fáum marktækifæri til þess að klára dæmið," segir Teitur í viðtali við dagblaðið Vancouver Sun.