Enski boltinn

Dyer gæti spilað með West Ham um helgina

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Kieron Dyer í leik með West Ham í deildabikarkeppninni í september síðastliðnum.
Kieron Dyer í leik með West Ham í deildabikarkeppninni í september síðastliðnum. Nordic Photos / Getty Images

Svo gæti farið að Kieron Dyer verði í byrjunarliði West Ham um helgina en það yrði þá aðeins í fimmta sinn síðan hann var keyptur frá Newcastle í ágúst árið 2007.

Dyer hefur eins og gefur að skilja átt við ítrekuð og þrálát meiðsli að stríða. Nú síðast var hann meiddur á vöðva aftan á læri og hefur verið frá vegna þess síðan í lok september.

Hann spilaði hins vegar með varaliði West Ham gegn Stoke í vikunni og skoraði tvívegis í leiknum.

Tíu dögum eftir að hann var keyptur til West Ham var hann borinn fótbrotinn af velli og var samtals frá í sautján mánuði. Um tíma var óttast að hann myndi neyðast til að hætta að spila knattspyrnu.

Dyer á að baki 30 leiki með enska landsliðinu og var með Englendingum á bæði HM 2002 og EM 2004.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×