Erlent

Stóri bróðir stækkar og stækkar í Bretlandi

Sumir óttast að spádómur George Orwells sé að rætast í Bretlandi.
Sumir óttast að spádómur George Orwells sé að rætast í Bretlandi.

Deilurnar um notkun breskra yfirvalda af ýmsu tagi hafa harðnað þar í landi síðustu daga eftir að í ljós kom að njósnað var um 500 þúsund manns þar á síðasta ári.

Bresk yfirvöld fóru fram á að fá að hnýsast í persónuleg gögn fólks 1400 sinnum á hverjum degi á síðasta ári en ný skýrsla sem kynnt var nýlega leiðir þetta í ljós. Í flestum tilvikum er um að ræða beiðnir um að kanna símnotkun og tölvupóstsendingar án þess að símtölin séu hleruð eða póstarnir lesnir. Aðeins er farið fram á að sjá hvert var hringt og hverjir fengu póst.

Þetta segja stjórnvöld að sýni að verið sé að beita tækjunum af hófsemi en andstæðingar eftirlitskerfisins, sem óvíða er fullkomnara en í Bretlandi sjá þetta í öðru ljósi. Þingmaður frjálslyndra á breska þinginu, Chris Huhne segir tölurnar ótrúlegar og að ljóst sé að Bretar hafi gengið í svefni síðustu ár og vaknað í eftirlitsþjóðfélagi af verstu sort.

Hann segir í viðtali við Sky fréttastofuna að Ríkisstjórnin hafi gleymt því að skáldsagan 1984 eftir George Orwell var hugsuð sem víti til varnaðar en ekki sem leiðarvísir.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×