Innlent

Borgarstjóri og Rice hjálpuðu leikskólabörnum að gróðursetja

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Hanna Birna Kristjánsdóttir borgarstjóri, írski tónlistarmaðurinn Damien Rice og Gísli Marteinn Baldursson, formaður Umhverfis- og samgönguráðs, aðstoðuðu börn af Laufásborg við gróðursetningu fyrstu plantnanna í svokölluðum Laufásborgarlundi í Hljómskálagarðinum í dag. Skrifað var undir samstarfssamning um lundinn eða svokallaðan grenndargarð leikskólans fyrr um daginn.

Samstarfsamningurinn við Laufásborg er 17. samningur Umhverfis- og samgöngusviðs um grenndargarða. Af þeim hafa 15 samningar verið gerðir við grunnskóla og einn við leik- og grunnskóla. Í fréttatilkynningu frá Reykjavíkurborg segir að ef tekið sé mið af vaxandi áhuga leikskólabarna á umhverfisvernd séu horfur á að samningum við leikskóla fjölgi töluvert á næstunni. Samningar um grenndargarða felast í því að viðkomandi skóla er gefið leyfi til afnota fyrir skólastarfið afmarkað svæði í borgarlandinu í samráði við borgina.

Borgarstjóri og írski tónlistarmaðurinn Damien Rice eru sérstakir verndarar Laufásborgarlundarins. Þau ásamt Gísla Marteini aðstoðuðu börn af Laufásborg við gróðursetninguna í lundinum austanmegin í Hljómskálagarðinum miðja vegu milli Hljómskála og Hringbrautar í dag.

Rice er hingað kominn til að vinna að hljóð- og myndupptökum fyrir næstu hljómplötu sína.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×