Innlent

Eiginfjárstöðu og gengishruni að kenna

Fyrrverandi bæjarstjóri vísar því á bug að leigusamningur við Fasteign ehf. skipti sköpum um stöðu sveitarfélagsins.
Fyrrverandi bæjarstjóri vísar því á bug að leigusamningur við Fasteign ehf. skipti sköpum um stöðu sveitarfélagsins.

Sigurður Magnússon, fyrrverandi bæjarstjóri á Álftanesi, segir að vegna veikrar eiginfjárstöðu sveitarfélagsins hafi hrunið á gengi krónunnar valdið meiri skaða á efnahag Álftaness en flestra annarra sveitarfélaga. Álftanes hefur nú óskað eftir aðstoð Eftirlitsnefndar um fjármál sveitarfélaga við að greiða úr miklum fjárhagsvanda.

Sigurður vísar því á bug að leigusamningur við Eignarhaldsfélagið Fasteign vegna nýrrar sundlaugar í bænum sé að kaffæra sveitarfélagið, eins og fram kom í Fréttablaðinu í gær.

Sigurður segir að erlendar skuldir Álftaness hafi verið 500 milljónir króna fyrir hrun. Þær hækkuðu í 1.000 milljónir á síðasta ári og hafa aukist um 250 milljónir króna til viðbótar á þessu ári.

Leigusamningurinn við Fasteign ehf. er með 55 prósenta gengistryggingu. Sigurður segir að vissulega sé það þung byrði á sveitarfélaginu eins og mál hafi þróast en tap síðasta árs nam 832 milljónum og segir Sigurður ljóst að bygging sundlaugarinnar hafi ekki valdið því, heldur gengishrunið. Höfuðvandinn sé veik eiginfjárstaða fyrir hrun. Helmingur erlendu skuldanna sé vegna fjárfestinga á árunum 2002-2006 og hafi að mestu verið venjulegar lántökur sveitarfélags með milligöngu Lánasjóðs sveitarfélaga.

Lausn á vandanum segir Sigurður felast í því að ríkið axli ábyrgð gagnvart sveitarfélögunum og þeim skaða sem þau hafi orðið fyrir vegna hrunsins. Einnig þurfi Jöfnunarsjóður að auka greiðslur til Álftaness. Þær hafi ekki verið í samræmi við það sem vera ber. Öll bæjarstjórnin sé sammála um þessar áherslur. Hann segist ekki telja að nauðsynlegt verði að nýta neyðarheimildir í lögum til að hækka útsvar og fasteignaskatta vegna ástandsins á Álftanesi.- pg




Fleiri fréttir

Sjá meira


×